Innlent

Siv og Samúel eru í efstu sætunum

Samúel Örn Erlingsson verður í forystusveit í kosningunum í vor.
Samúel Örn Erlingsson verður í forystusveit í kosningunum í vor. MYND/Stefán

Samúel Örn Erlingsson, íþróttafréttamaður hjá Ríkissjónvarpinu, verður í öðru sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi í kosningunum næsta vor. Þrjú sóttust eftir öðru sætinu á listanum auk Samúels Arnar; Una María Óskarsdóttir, Gísli Tryggvason og Þórarinn Sveinsson. Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra leiðir listann en hún var sjálfskipuð í efsta sætið þar sem enginn bauð sig fram á móti henni.

Samúel segir framsóknarmenn þurfa að bretta upp ermar og safna liði fyrir kosningarnar næsta vor. „Ég fann fyrir miklum meðbyr og þetta var ánægjuleg niðurstaða. Það er mikil vinna fram undan og ég er bjartsýnn á að fólk veiti Framsóknarflokknum stuðning til áframhaldandi góðra verka. Við höfum alla burði til þess að efla okkar starf enn frekar og förum beint í það verkefni.“

Una María Óskarsdóttir verður í þriðja sæti á listanum en Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, í því fjórða. Kristbjörg Þórisdóttir verður í fimmta sæti á listanum en Hlini Melsteð Jóngeirsson í sjötta.

Sjálfstæð kosning fór fram um efstu sex sætin en um 240 manns greiddu atkvæði á þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×