Innlent

Segir söluferlið vera óvandað

Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn, segir það hafa verið mistök hjá meirihluta í borgarstjórn að fallast á söluna á hlut borgarinnar í Landsvirkjun á þeim forsendum sem lágu fyrir.

Dagur segir slæmt að ríkið greiði ekki fyrir hlut sinn með bréfum sem hægt er að selja á markaði. "Kjarni málsins er sá að forsvarsmenn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar hafa lagt á það þunga áherslu á að ef það ætti að greiða fyrir hlutinn í bréfum þá þyrftu að vera á þeim fastir vextir, þannig að þau væru seljanleg á markaði. Það blasir við, að þegar bréfin eru óseljanleg, þá gerir það fjárstýringu sjóðsins þunglamalega, vegna þess að lífeyrissjóðir eru skuldbundnir til þess að tyggja félögum sínum hámarksávöxtun."

Eins og greint var frá í Fréttablaðinu í gær sagði Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður lífeyrissjóðsins, það óheppilegt að ekki hefði verið látið greiða fyrir hlutinn með bréfum sem hægt væri að selja á markaði.

Íslenska ríkið greiðir fyrir helmingshlut í Landsvirkjun, sem áður var í eigu Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, með skuldabréfi til 28 ára. Samtals greiddi ríkið rúmlega 30 milljarða fyrir hlutann en Reykjavíkurborg var áður 45 prósent eigandi í Landsvirkjun og Akureyrarbær rúmlega fimm prósent.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri segir Sigurð Snævar borgarhagfræðing og Birgi Finnbogason, fjáramálastjóra borgarinnar, hafa metið það svo að skynsamlegast væri að fá greitt með þeim hætti sem ákveðið var að fallast á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×