Innlent

Skoða skipasmíðastöð í Chile

Fulltrúar íslenskra stjórnvalda halda í dag til Chile til þess að kanna áreiðanleika skipasmíðafyrirtækisins Asmar, sem átti lægsta tilboðið í gerð nýs varðskips. Tveir fulltrúar Landhelgisgæslunnar, verkefnisstjóri Ríkiskaupa og danskur verkfræðingur, sem verið hefur íslenskum yfirvöldum innan handar við undirbúning útboðsins, munu skoða aðstæður Asmar í Talcahuano í Chile í sex daga.

Lægra tilboð Asmar af tveimur hljóðaði upp á 28 milljónir evra, liðlega 2,4 milljarða, en áætlaður kostnaður vegna kaupa á nýju varðskipi er um 30 milljónir evra, eða tæplega 2,6 milljarðar. Tilboð bárust einnig frá Simek í Noregi, Damien í Hollandi og Pinevert í Þýskalandi.

Georg Lárusson, yfirmaður Landhelgisgæslunnar, segir markmiðið með ferðinni vera að kanna aðstæður og starfsaðferðir fyrirtækisins í Chile. „Við höfum ágætis upplýsingar um hin fyrirtækin sem lögðu inn tilboð en þekkjum lítið til starfsaðferða og aðstæðna hjá Asmar. Þessi ferð er því fyrst og fremst könnunarferð en að henni lokinni eru forsendur til þess að meta það hvort gengið verður að tilboði fyrirtækisins.“

Samkvæmt áætlunum verður nýtt varðskip rúmlega 90 metra langt og með 100 til 125 tonna dráttarkraft.

Fjórmenningarnir koma heim laugardaginn 11. nóvember en að lokinni skoðuninni tekur ríkisstjórn Íslands afstöðu til þess hvort tilboði Asmar verður tekið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×