Innlent

Ekstrablaðið sendir fjármálaráðherra bréf

Blaðamenn Ekstrablaðsins danska hafa sent Árna Mathiesen fjármálaráðherra bréf þar sem hann er spurður um tengsl íslenskra kaupsýslumanna við skúffufyrirtæki á Bresku jómfrúaeyjum. Hann hefur ekki svarað.

Bréfið með níu spurningum var sent á fimmtudaginn til fjármálaráðherra, KB banka, Baugs og Exista. Svarið frá Íslandi, segir í leiðara blaðsins í dag, er alger þögn. Spurningarnar til ráðherra er birtar í blaðinu. Sporhundarnir, eins og blaðamennirnir kalla sig, spyrja hvort fjármálaráðherra sé kunnugt um starfsemi Íslendinga á bresku jómfrúreyjum í tengslum við Lúxemborg og hvort hann hafi látið rannsaka félög á borð við Gaum, Meið og fleiri fjárfestingarfélög. Sömuleiðis er spurt hvort Árna sé kunnugt um eigendur skúffufyrirtækjanna Quenon investments og Shapburg limited á Bresku jómfrúreyjum, nánar tiltekið á eyjunni Tortola, en þau stofnuðu síðar önnur skúffufyrirtæki sem síðar skiptu um nöfn og hétu þá Gaumur, sem er í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu, og hins vegar félags hvurs eignir fluttust allar til Exista, fjárfestingafélags en stærstu eigendur þess eru Bakkavararbræður. Þriðja félagið sem spratt upp úr Quenon og Shapburg eru Alfa Finance Holding sem er í eigu eins ríkasta manns Rússlands, Mikhail Fridman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×