Innlent

Hornfirðingar kaupa í flugfélagi

Flugvél Landsflugs
Flugvél Landsflugs MYND/Vilhelm

Hópur Hornfirðinga hefur keypt 10% hlut í eignarhaldsfélaginu City Star sem á og rekur flugfélag í Skotlandi og Landsflug sem flýgur meðal annars milli Reykjavíkur og Hornafjarðar.

Eignarhaldfélagið er í eigu Íslendinga og undir það heyra City Star Airlines í Aberdeen í Skotlandi, Landsflug og viðhaldsfyrirtækið Skýli eitt. City Star Airlines flýgur frá Aberdeen til Lundúna, Ósló og Stavanger auk þess sem félagið hefur verið með beint leiguflug til Íslands. Landsflug flýgur síðan til Vestmannaeyja, Hornafjarðar, Sauðárkróks, Bíldudals og Gjögurs.

Halldóra B. Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar, er í forsvari fyrir hópinn. Hún segir hluthafana tuttugu og samkvæmt upplýsingum NFS eru þeir flestir úr hópi trillukarla og þeirra sem koma nálægt útgerð á Hornafirði.

Ákveðið var að kaupa í félaginu á fundi sem haldinn var í nóvember síðastliðnum og var síðan gengið frá kaupunum rétt fyrir áramót. Halldóra segir fjárfestana sjá fyrir sér möguleika á góðri samvinnu Hornafjarðar og CityStar, meðal annars í uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Félagið sé í örum vexti og fjárfestunum hafi litist vel á það sem fjárfestingarkost. Halldóra segir fjárfestana sjá fyrir sér möguleika á leiguflugi frá Hornafirði til borga í Evrópu. Sem dæmi hafi hópur ferðamanna flogið frá Hornafirði með leiguflugi City Star til Írlands í september.

Rúnar Fossádal Árnason, framkvæmdastjóri City Star, segir þessi kaup koma til með að hjálpa til við að efla starfsemi félagsins á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×