Innlent

Kallar eftir þjóðarsátt um að hækka lægstu laun

Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Kópavogs, kallar eftir þjóðarsátt um að hækka lægstu launin fyrir launamálaráðstefnu sveitarfélaganna sem halda á 20. janúar næstkomandi. Hann segir minni sveitarfélög ekki þola að launahækkanir verði jafnmiklar yfir alla línuna. Oddviti Samfylkingarinnar gagnrýnir bæjarstjórnina fyrir að grípa ekki strax í taumana til þess að koma í veg fyrir frekari uppsagnir á leikskólum bæjarins.

Um 45 starfsmenn á leikskólum Kópavogs hafa sagt upp störfum á síðustu dögum og því ríkir töluverð óvissa um starf þeirra á næstu mánuðum. Eins og gefur að skilja hafa foreldrar miklar áhyggjur af málinu en forsvarsmenn foreldrafélaga leikskóla í bænum funduðu í gærkvöld vegna málsins og segja kjarabætur nauðsynlegar til að halda starfsfólkinu í vinnu.

Flosi Eiríksson, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi, gagnrýnir meirihluta Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, fyrir sinnuleysi og segir Samfylkinguna hafa lagt fram tillögur að lausn vandans sem ekki hafi verið hlustað á.

Hann segir tillögurnar hafa verið þríþættar. Í fyrsta lkgi hafi verið lagt til að taka upp viðræður viðp forystu Starfsmannafélags Kópavogsbæjar og Félag leikskólakennara, en það hafi einnig verið gert í haust. Þá hafi verið lagt til að starfsmenn leikskóla fengju eingreiðslur til þess að mæta því mikla álagi sem verið hafi á þeim vegna manneklu og til þess að halda í starfsmennina. Í þriðja lagi hafi verið lagt til að á síðustu vikum að hækka laun leikskólastarfsmanna til samræmis við launin í Reykjavík þannig að Kópavogur sé samkeppnishæfur um gott starfsfólk á leikskólum.

Ármann Kr. Ólafson, forseti bæjarstjórnar Kópavogs, segir að ákvarðanir meirihlutans um að hækka lægstu laun í sveitarfélaginu standa en að sú tillaga verði ekki lögð fram fyrr en á launaráðstefnu sveitarfélaganna. Hann varar við því að launahækkanir verði jafnar yfir alla línuna. Verkefnið sé að hækkað lægstu launin þannig að kjör þess hóps batni raunverulega. Hann sé í rauninni að kalla eftir nýrri þjóðarsátt. Aðspurður hvort hann reikni með að sátt náist um málið á launamálaráðstefnu sveitarfélaganna 20. janúar segir Ármann að eftir því sem hann hafi heyrt hjjá öðrum sveitarstjórnarmönnum líti sveitarfélögin á þetta sem verkefni sitt.

Flosi segir hins vegar að það sé enginn tími til að bíða með málið í Kópavogi. Það hafi verið viðvarandi vandi á leikskólum bæjarins í allt haust. Auk þess viti enginn hvað gerist eftir launamálaráðstefnuna og hún ákveði ekki hvernig Kópavogsbúar eyði peningum sínum. Það sé bæjarstjórnin sem geri það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×