Erlent

Vissu af árásarmanninnum en týndu honum í fjöldanum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ættingjar og vinir Corey Comperatore, sem lést þegar árásarmaðurinn skaut á Trump, efndu til minningarstundar í gær.
Ættingjar og vinir Corey Comperatore, sem lést þegar árásarmaðurinn skaut á Trump, efndu til minningarstundar í gær. AP/Eric Gay

Árásarmaðurinn sem særði Donald Trump og myrti áhorfanda á kosningafundi í Pannsylvaníu á laugardag datt inn á radar lífvarðaþjónustu Bandaríkjanna (e. Secret Service) um klukkustund áður en hann lét til skarar skríða.

Frá þessu greinir BBC en í umfjöllun miðilsins segir að hann hafi verið „flaggaður“ sem grunsamlegur þar sem hann var með fjarlægðamæli og bakpoka. 

Leyniskytta á vegum staðaryfirvalda er sögð hafa tekið mynd af árásarmanninum þar sem hann var að nota fjarlægðarmælinn og tilkynnt tafarlaust um hann til stjórnstöðvar. Skyttan virðist hins vegar hafa misst sjónar á árásarmanninum, sem týndist í fjöldanum.

Hann sást aftur uppi á þaki um það bil 20 mínútum áður en hann skaut á Trump en ekki náðist að stöðva hann. Hann var skotinn til bana 26 sekúndum eftir að hann hleypti af fyrsta skotinu á sviðið þar sem Trump stóð.

Þessar upplýsingar og fleiri komu fram á fundi öryggisyfirvalda með þingmönnum í gær. 

Þar var einnig greint frá því að árásarmaðurinn hefði heimsótt hátíðarsvæðið að minnsta kosti einu sinni dagana fyrir kosningafundinn. Þá hafði hann notað símann sinn til að leita að myndum af Trump og Joe Biden Bandaríkjaforseta og fletta upp einkennum þunglyndisröskunar.

Áður hafði verið greint frá því að lögreglumaður sem var að sinna eftirliti vegna upplýsinga um grunsamlegan einstakling hafi komið augliti til auglitis við árásarmanninn þar sem hann mundaði skotvopn sitt uppi á þaki.

Lögreglumaðurinn lét sig falla niður af þakinu þegar árásarmaðurinn beindi byssunni að honum og tilkynnti strax um atvikið. Andartaki síðar heyrðust byssuhvellir.

Repúblikanar eru sagðir afar ósáttir við þær upplýsingar og svör sem hafa fengist frá lífvarðaþjónustunni og hafa kallað eftir afsögn forstjórans, Kimberly Cheatle. Hún mun mæta fyrir þingnefnd á næstu dögum til að svara fyrir það sem fór úrskeðis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×