Erlent

Hét því að endur­vekja banda­ríska drauminn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vance freistaði þess að höfða til íbúa í hinu svokallaða „ryðbelti“, þar sem iðnaður var blómlegur á sínum tíma en fátækt ríkir nú víða.
Vance freistaði þess að höfða til íbúa í hinu svokallaða „ryðbelti“, þar sem iðnaður var blómlegur á sínum tíma en fátækt ríkir nú víða. AP/Carolyn Kaster

„Ég heiti hverjum Bandaríkjamanni því, hvaða flokk sem þú kýst, að gefa allt sem ég hef. Að þjóna ykkur og gera þetta land að stað þar sem þeir draumar sem þú átt fyrir sjálfan þig, fjölskyldu þína og landið þitt geta orðið að raunveruleika.“

Þetta sagði J.D. Vance, varaforsetaefni Donald Trump, þegar hann ávarpaði landsþing Repúblikana í gær.

Vance talaði mikið um rætur sínar í „ryðbelti“ Bandaríkjanna og sagðist myndu láta þær lexíur leiða sig sem hann lærði hjá ömmu sinni og minningar um vini og kunningja sem létust sökum ofskömmtunar eiturlyfja.

Áður en hann tilkynnti um val sitt á varaforsetaefni sagðist Trump það meðal annars myndu ráðast af því hvort viðkomandi gæti hjálpað honum til við að ná kjöri á ný. Það var ekki annað að sjá en að Vance hyggist taka það hlutverk alvarlega en hann talaði ítrekað um Michigan, Pennsylvaníu og Wisconsin í ræðu sinni, þar sem baráttan verður hvað hörðust og þar sem hlutfall hvítra verkamanna er hvað hæst.

Vance fór víða og gerði því meðal annars skóna að Kommúnistaflokkurinn í Kína væri bein ógn við miðstéttina í Bandaríkjunum. Þá hét hann því að Repúblikanaflokkurinn myndi ekki „flytja inn erlent vinnuafl“ en þess í stað endurreisa verksmiðjur og fjölga þeim vörum sem væru stimplaðar „þeim fallega stimpli: Framleitt í Bandaríkjunum“.

„Við þurfum leiðtoga sem berst fyrir fólkið í landinu,“ sagði Vance. „Við þurfum leiðtoga sem er ekki í vasanum á stórfyrirtækjunum heldur svarar kalli hins vinnandi manns, hvort sem hann er verkalýðsfélagi eða ekki, leiðtoga sem mun ekki selja sig alþjóðafyrirækjum heldur berjast fyrir bandarískan iðnað.“

Varaforsetinn Kamala Harris, sem mun væntanlega mæta Vance í kappræðum á næstunni, gaf lítið fyrir yfirlýsingar hans í gær og sagði valið á honum ekki annað en staðfesting á þeirri öfgastefnu sem Trump boðaði.

„J.D. Vance verður aðeins hliðhollur Trump, ekki landinu okkar,“ sagði hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×