Innlent

Heppilegra að bíða með aðgerðir

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. MYND/VILHELM

Það er betra að fara hægar en hraðar þegar kemur að því að heimila hjónavígslu samkynhneigðra, segir Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Hann segir að fólk verði að gefa sér tíma til að ræða málið út frá öllum hliðum áður en lengra sé haldið.

Kristinn skrifar pistil á heimasíðu sinna þar sem hann fjallar um þá umræðu sem hefur verið um hjónavígslur samkynhneigðra og segir meðal annars. "Vitað er að þjóðkirkjan er ekki fylgjandi því að heimila hjónavígslu samkynhneigðra, þótt vissulega séu þar innan einstaklingar sem því eru fylgjandi. Verði boðuð tillaga samþykkt mun enginn vandi verða leystur, heldur þvert á móti. Deilurnar innan þjóðkirkjunnar munu vaxa og harðna og frekar mun verða erfiðara að finna lausn. Ég tel það ekki heppilegt hvorki fyrir þjóðkirkjuna né þjóðfélagið að steypa mönnum í slík illindi. Þá er betra að fara hægar en hraðar og gefa sér tíma til þess ræða málið út frá öllum hliðum áður en lengra er haldið."

Kristinn segir að það sé raunar undrunarefni að þegar ríkisstjórnin flytji frumvarp um aukin réttindi til handa samkynhneigðum er varði ættleiðingar, tæknifrjóvgun og sambúð með tilheyrandi réttarbótum á sviði almannatrygginga,félagsþjónustu, lífeyrissjóða, skattlagningu, barnalaga, erfðafjárlaga og fæðingarorlofs skuli opinber umræða snúast eingöngu um það að hjúskaparlögunum sé ekki breytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×