Innlent

Brot á leikreglum segir bæjarfulltrúi

Frá Seltjarnarnesi
Frá Seltjarnarnesi MYND/Valli

Það á að umbuna starfsmönnum Seltjarnarnesbæjar með einhverju öðru en gjafakorti í Kringlunni. Þetta segir oddviti minnihlutans í bæjarstjórn en bæjarstjóri hefur upp á sitt einsdæmi gefið vilyrði fyrir því að allir starfsmenn Seltjarnarnesbæjar, 300 að tölu, fái gjafakort að upphæð tuttugu þúsund krónur. Brot á leikreglum, segir fulltrúi minnihlutans.

Eins og greint var frá í fréttum NFS í gærkvöldi þá fengu þrjátíu leikskólastarfsmenn á Seltjarnarnesi gjafabréf í Kringlunni upp á 20 þúsund krónur að gjöf frá bæjaryfirvöldum um áramótin. Bæjarstjóri Seltjarnarness, Jónmundur Guðmarsson, gaf vilyrði fyrir gjöfinni án samráðs við fjárhags- og launanefnd bæjarins. Oddviti minnihlutans í nefndinni, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, er afar ósátt við vinnubrögðin og segir það ótæka stjórnsýslu að að ráðstafa peningum úr bæjarsjóði án þess að hafa til þess formlega heimild. Hún segist þó ekki vera að gagnrýna það að verið sé að umbuna bæjarstarfsmönnum - það verði hins vegar að fara að leikreglum.

Þá hefur bæjarstjórinn einnig gefið vilyrði fyrir því að allir starfsmenn Seltjarnesbæjar, sem eru um 300, fái sams konar gjafabréf sem myndi kosta bæinn um 6-8 milljónir að sögn Guðrúnar. Fjárhags- og launanefndin mun funda um þann anga málsins í næstu viku, en leikskólastarfsmennirnir hafa hins vegar nú þegar fengið sín gjafabréf afhent. Aðspurð hvort hún hyggist greiða atkvæði gegn því á fundinum að allir starfsmenn bæjarins fái gjafabréf segist hún vilja skoða aðrar leiðir. Þetta sé hálfgerð „dúsa".

Prófkjör sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi fer fram í byrjun febrúar en bæjarstjórinn er þar í framboði. Guðrúnu finnst atburðarásin undanfarna daga bera keim af því, segir að það sé „prófkjörslykt" af málinu, enda sé bæjarstjórinn búinn að fá mótframboð.

 

 

 

 

 

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×