Innlent

Stjórnmálaflokkar ekki sammála um breytingar á eftirlaunalögum

Engar breytingar hafa verið gerðar á eftirlaunalögunum þar sem stjórnmálaflokkarnir eru ekki samstíga um hversu langt eigi að ganga til breytinga. Ögmundur Jónasson þingmaður Vinstri grænna segir engar málamiðlanir til. Það verði að rífa þessi ólög upp með rótum. Allt hik sýni að hugur fylgi ekki máli hjá stjórnarflokkunum.

Forsætisráðherra ræddi í desember við formenn allra stjórnmálaflokka um breytingar á eftirlaunalögunum. Flokkarnir koma sér hinsvegar ekki saman um hversu langt sé hægt að ganga og á meðan geta fyrrverandi ráðherrar sem gegna hálaunastöðum hjá hinu opinbera þegið jafnhliða eftirlaun sem ráðherrar.

Björn Ingi Hrafnsson aðstoðarmaður forsætisráðherra sagði í gær að ekki hefði náðst sátt um hvernig ætti að breyta lögunum. Forsætisráðherra hafi lagt fram ákveðnar hugmyndir sem ekki hafi fengið hljómgrunn hjá öllum flokkum. Þær hugmyndir séu trúnaðarmál. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarninnar sagði málið umdeilt meðal lögmanna en hún hallaðist á sveif með þeim sem teldu að það væri hægt að snúa til baka. Nefnd lögmanna sem forsætisráðherra skipaði hafði hinsvegar áður sagt að erfitt gæti reynst að taka þessi réttindi af mönnum sem þegar væru farnir að þiggja eftirlaun.

Ögmundur Jónasson segir að aldrei verði sátt um annað en að rífa lögin upp með rótum.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×