Innlent

Bæjarstjóri sækist ekki eftir sæti á lista Sjálfstæðismanna í Garðabæ

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ. MYND/GVA

Sjálfstæðismenn í Garðabæ hafa ekki ákveðið hvort núverandi bæjarstjóri, verði bæjarstjóraefni flokksins vegna sveitastjórnarkosninga í vor. Prófkjör flokksins þar í bæ er haldið í dag í fyrsta sinn í tæpa þrjá áratugi og er bæjarstjórinn ekki í framboði.

Síðan ákveðið var að efna til prófkjörs hefur félögum í Sjálfstæðisfélagi Garðabæjar fjölgað úr 1300 í 2134 eða um rúm 60%. Prófkjörið hófst klukkan 10 í morgun í félagsheimili sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ og lýkur klukkan 18 í kvöld.

Ásdís Halla Bragadóttir lét af embætti bæjarstjóra í fyrravor þegar hún tók við starfi forstjóra BYKO. Gunnar Einarsson tók þá við starfi bæjarstjóra. Gunnar er ekki einn þeirra 12 sem sækist eftir 7 sætum á lista flokksins fyrir kosningarnar.

Tveir sækjast eftir fyrsta sæti, þeir Erling Ásgeirsson og Páll Hilmarsson en báðir sitja þeir nú í bæjarstjórn Garðabæjar. Hins vegar vekur nokkra athygli að forseti bæjarstjórnar, Laufey Jóhannsdóttir, sækist ekki eftir því að leiða listann, heldur stefnir hún á annað sæti.

Jón Guðmundsson, formaður fulltrúaráðs flokksins í Garðabæ, segir ekki ákveðið hvort Gunnar verði bæjarstjóraefni flokksins í kosningunum eða einhver af listanum. Það verði fulltrúaráðið og þeir sem fái sæti á listanum sem ákveði það í byrjun febrúar.

Samkvæmt prófkjörsreglum flokksins þarf helmingur skráðra félaga í Sjálfstæðisfélaginu í Garðabæ að taka þátt í prófkjörinu svo það verði bindandi, einnig þarf hver frambjóðandi að fá helming greiddra atkvæða í tiltekið sæti svo kosning sé bindandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×