Innlent

Björn segir verið að reyna að koma höggi á sig

MYND/Vísir

Björn Ingi Hrafnsson, frambjóðandi í prófkjöri framsóknarmanna í Reykjavík, segir það enga tilviljun að sögusagnir af því að stuðningsmenn hans hafi veitt unglingum áfengi séu blásnar upp svo skömmu fyrir prófkjör. Björn sakar stuðningsmenn annars frambjóðanda um að reyna að koma höggi á sig.

Lögreglan var send að kosningaskrifstofu Björns Inga við Suðurlandsbraut í fyrrakvöld eftir að ábending barst um að þar væri fólk undir lögaldri að drykkju. Björn segir að um einkasamkvæmi á vegum stuðningsmanna sinna hafi verið að ræða og sjálfur hafi hann ekki verið á staðnum. Björn var gestur Fréttavaktarinnar fyrir hádegi á NFS þar sem hann sagðist ekki hafa neina hagsmuni af því að hafa fólk undir lögaldri nálægt prófkjörinu því það geti ekki einu sinni kosið. Hann kvaðst þó bera fulla ábyrgð á því veisluhaldi sem fram fari á kosningaskrifstofunni. Björn Ingi segist hafa rætt við lögregluna í morgun og hún hafi tjáð sér að ólíklegt væri að aðhafst yrði frekar í málinu.

Björn segir málið merki um „grjótharða kosningabaráttu" framsóknarmanna. Leigubílstjóri sem tók myndir fyrir utan kosningaskrifstofuna á laugardagskvöldið og sýndar hafa verið á NFS styðji annan frambjóðanda en sig. „Þetta er einfaldlega inngrip í prófkjörsslag þar sem verið er að reyna að koma höggi á mig og mitt framboð," segir Björn. Aðspurður segir Björn Ingi að það hafi ekkert verið sérstaklega góð hugmynd að gefa leyfi fyrir skemmtanahaldinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×