Innlent

Íslandsmet í skattpíningu

Mynd/GVA

Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í utandagskrárumræðum á Alþingi í dag um breytingar á skattbyrði, að þrír síðustu fjármálaráðherrar Íslands ættu Íslandsmet í skattpíningu á almenningi. Þá vísaði hún í grein Stefáns Ólafssonar prófessors þess efnis að skattbyrði hefði aukist hjá heimilum með lágar og meðaltekjur eða hjá 90 prósentum heimila.

Jóhanna sagði almenning þurfa að greiða minnst einum mánaðartekjum meira í skatt á ári nú en fyrir tíu arum síðan. Sagði hún að skattbyrði á almenning hefði vísvitandi verið aukin síðustu tíu ár eins og Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði viðurkennt.

Fleiri stjórnarandstöðuþingmenn tóku til máls. Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, sagði fullkomið gap að verða á milli ríkra og þeirra sem lægstu launin hefðu. Guðjón A. Kristjánsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði hátekjufólk hafa notið verulegs hagræðis með skattabreytingarstefnu ríkisstjórnarinnar. Aðrir stjórnarandstöðuþingmenn tóku í svipaðan streng.

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var á meðal þeirra sem komu ríkisstjórninni til varnar. Hann sagði atvinnulausum hafa fækkað og að námsmönnum, útlendingum og öldruðum hefði öllum fjölgað á Íslandi og að þessir hópar væru á meðal þeirra tekjulægstu í landinu. Árni Mathiesen fjármálaráðherra var einnig til andsvara og sagði ríkisstjórnina hafa lækkað skatta á sama tíma og hún hefði styrkt velferðarkerfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×