Innlent

Rekstur flugvallarins og björgunarsveitirnar undir

Geir Haarde utanríkisráðherra.
Geir Haarde utanríkisráðherra.
Yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar og aðkoma að leitar- og björgunarsveit eru helstu atriðin sem samningamenn Íslands leggja fram í viðræðum við Bandaríkjamenn um framtíð varnarliðsins, segir Geir H. Haarde utanríkisráðherra sem átti fund með utanríkismálanefnd á tólfta tímanum.

Fundinum lauk laust fyrir tólf og fór Geir af fundi án þess að gefa sér tóm til að ræða við fjölmiðla enda dagskrá hans þéttskipuð í dag. Hann ræddi hins vegar við fjölmiðla eftir ríkisstjórnarfund, rétt áður en hann hélt á fund utanríkismálanefndar. Þar sagðist hann vonast til að ná samkomulagi enda væri mikilvægt að fá niðurstöðu sem fyrst, hvort tveggja fyrir landvarnir hér og fyrir bandamenn Íslands.

Geir sagði lykilatriði að halda orustuþotunum fjórum sem hér eru. "Fjórar þotur eru lágmark í huga allra sem þekkja til þessara mála," sagði Geir.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í utanríkismálanefnd, fagnar því að tekist hafi að fá Bandaríkjamenn að samningaborðinu og að efnislegar viðræður væru hafnar. Hún sagði hins vegar erfitt að leggja mat á þetta að öðru leyti því stjórnarandstaðan hefði ekki fyllstu upplýsingar um málið.

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri-grænna og fulltrúi þeirra í utanríkismálanefnd, segist ekki líta svo á að með þessu sé verið að greiða fyrir landvarnir. Hérna sé fyrst og fremst um borgaralega starfsemi, svo sem rekstur flugvallarins og björgunarsveitar. "Mér finnst þetta allt saman horfa í rétta átt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×