Innlent

Dagsbrún skilar 700 milljóna króna hagnaði

Forráðamenn Dagsbrúnar og Dags Group við undirskrift samninga.
Forráðamenn Dagsbrúnar og Dags Group við undirskrift samninga.

Dagsbrún, sem á 365 miðla og þar með NFS, keypti í dag allt hlutafé Senu. Ársuppgjör félagsins var einnig birt í dag en samkvæmt því skilaði Dagsbrún liðlega 700 milljóna króna hagnaði eftir skatta.

Sena er eitt stærsta afþreyingarfyrirtæki landsins en kaupin á fyrirtækinu eru gerð með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda. Sena hét áður Skífan, sem Norðurljós, fyrrverandi móðurfélag Stöðvar 2, seldu fyrir tæpum tveimur árum.

Hluti gömlu Skífunnar er með kaupunum því að koma aftur inn í fjölmiðlasamsteypuna því með Senu fylgja meðal annars tónlistarútgáfa, kvikmynda- og tónlistarumboð, bíórekstur og hljóðver. Dagur Group heldur hins vegar eftir verslunarrekstrinum, þar með talið Skífuverslunum og BT-verslunum. Kaupverð, um 3,5 milljarðar króna, er greitt bæði með reiðufé og hlutafé.

Dagsbrún, sem bæði rekur Og Vodafone og 365 miðla, birti ársuppgjör sitt í dag en samkvæmt því ríflega tvöfaldaðist ársvelta samsteypunnar, fór úr 7 milljörðum króna og yfir 15 milljarða. Hagnaður nam liðlega 700 milljónum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×