Innlent

Krafist verði frekari undanþágna frá Kyoto-bókuninni

MYND/Stefán

Forsætisráðherra segir að núverandi ríkisstjórn muni krefjast frekari undanþágna frá Kyoto-bókuninni til að greiða fyrir uppbyggingu fleiri álvera. Á hvaða ráðherra ríkisstjórnarinnar eiga menn að taka mark varðandi uppbyggingu álvera, spurði formaður Samfylkingarinnar á Alþingi í dag og benti á að menn töluðu í austur og vestur.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir rifjaði upp að iðnaðarráðherra hefði sagt í útvarpsfréttum í júní að einungis væri rúm fyrir eitt álver í viðbót. Þá hefðu skyndilega dúkkað upp hugmyndir um tvö ný álver og frekari stækkun í Straumsvík. Umhverfisráðherra hefði þá stigið fram á sjónarsviðið og sagt að ekki yrði um fleiri álver að ræða ef stækkað yrði í Straumsvík. Og formaður Samfylkingarinnar spurði hverjum ætti að trúa.

Ingibjörg Sólrún sagði að fyrir norðan hefði iðnaðar- og viðskiptaráðherra að kynna hugmyndir um álversuppbyggingu á Norðurlandi. Þar hefði ráðherrann sagt að álver þar væri óháð því sem gerðist fyrir sunnan. Norðlendingar hefðu aldrei verið eins nærri því að fá álver. Þegar hún hafi verið spurð út í ummæli umhverfisráðherra í málinu hefði hún sagt orðrétt: „Treystu á mig. Takið ekki mark á umhverfisráðherra."

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagði að samningar við álfyrirtæki réðust ekki síst af því hvort hægt yrðaað skaffa rafmagn.Þegar það lægi ljósar fyrir þyrfti að raða því upp og sjá hvernig það rúmaðist í íslensku efnahagslífi.

Ingibjörg Sólrún sagði svarið loðið. Hún hlyti að líta svo á, þar sem því hefði ekki verið svarað með öðrum hætti, að þessar þrjár framkvæmdir rúmuðust ekki innan Kyoto-bókunarinnar eða þeim hagstjórnarmarkmiðum sem sett hefðu verið. Ein af þremur gæti það og því spurði Ingibjörg hvort ekki væri verið að draga þrjú fyrirtæki og þrjú sveitarfélög á asnaeyrunum með því að tala ekki skýrt.

Ákvæði Kyotobókunarinnar gildir til 2012 sagði ráðherrann. Aðeins eitt þessara álfyrirtækja treysti sér til að ljúka framkvæmdum fyrir þann tíma. Í mál i ráðherrans kom fram að stefnt sé að því árið fyrir 2012 að fara fram á frekari undanþágur og það verði krafa núverandi ríkisstjórnar.

Halldór sagði að þær kröfur hlyti að verða gerðar áfram að Íslendingar gætu nýtt sínar endurnýjanlegu auðlindir og tekið þátt í því að minnka mengun í heiminum með því að framleiða rafmagn með vistvænum hætti hér á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×