Innlent

Ísland vænlegur kostur fyrir erlenda fjárfesta

Ísland er þriðja vænlegasta land í heimi fyrir erlenda fjárfesta að mati bandaríska viðskiptatímaritsins Forbes. Á undan Íslandi á listanum er Danmörk, sem trónir á toppnum, og Finnland. Á eftir Íslandi koma Bandaríkin og Bretland en á botninum situr Haítí, rétt fyrir neðan Laos og Angóla.

Forbes aflaði sér upplýsinga um 135 lönd og studdist meðal annars við kannanir og tölfræðirannsóknir til að reikna út stuðul sem ætlað er að mæla það hversu vinveitt löndin séu erlendu fjárfestum.

Sérfræðingar Forbes segja Ísland í grunninn kapitalískt hagkerfi þar sem á sama tíma sé rekið umfangsmikið velferðarkerfi. Atvinnuleysi sé lítið og tekjudreifing jöfn. Hafa beri þó í huga að hagkerfið sé viðkvæmt fyrir breytingum á heimsmarkaðsverði helstu útflutningsafurða, sem séu fiskur, ál og járnblendi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×