Sport

City og Villa þurfa að mætast aftur

Gríski framherjinn Georgios Samaras og hinn sænski Olof Mellberg í leiknum í kvöld.
Gríski framherjinn Georgios Samaras og hinn sænski Olof Mellberg í leiknum í kvöld. NORDICPHOTOS/GETTY IMAGES
Aston Villa og Manchester City þurfa að mætast aftur í 16-liða úrslitum FA bikarkeppninnar eftir dramatískan leik liðanna í kvöld. Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli en leikmenn City jöfnuðu metin þegar komið var langt fram yfir venjulegan leiktíma.

Darius Vassell var að leika gegn sínunm gömlu félögum og hann fékk besta færi fyrri hálfleiks þegar hann slapp einn í gegnum vörn Villa en hann lét Tomas Sörensen hirða boltann af sér og ekkert varð úr færinu. Leikmenn Villa voru heillum horfnir og gerðu lítið til að ógna marki David James og þeir voru stálheppnir að komast yfir.

Sean Davis sendi á Milan Baros sem skoraði gott mark en vörn liðsins var oft á tíðum ótrúlega heppin að halda boltanum réttu megin við línuna en þeir björguðu meðal annars á línu eftir skalla frá Richard Dunne.

Þeim tókst þó ekki að landa sigrinum þar sem Michael Richards skoraði með skalla eftir hornspyrnu Joey Barton þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma og því þurfa liðin að mætast á nýjan leik og leika þá til þrautar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×