Innlent

Félagsráðgjafar mótmæltu á borgarstjórnarfundi

MYND/Pjetur

Félagsráðgjafar fjölmenntu á áhorfendapalla á borgarstjórnarfundi í dag til að krefjast bættra kjara og knýja á um að kraftur komist í viðræður þeirra og borgarinnar um nýjan kjarasamning. Þeir útiloka ekki verkfall.

Kjarasamningar félagsráðgjafa við borgina runnu út 1. desember í fyrra og í kjölfarið var samið upp á nýtt. Sá samningur var hins vegar kolfelldur í atkvæðagreiðslu og hefur kjaranefnd Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa fundað með launanefnd Reykjavíkurborgar nokkrum sinnum síðan en án árangurs.

Sjötíu og fjórir félagsráðgjafar starfa hjá borginni og eru fjölmennasti faghópurinn á Þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar sem stofnaðar voru í fyrra. Þeir eru ósáttir við þann launamun sem ríkir á milli félagsráðgjafa og annara sérfræðinga hjá borginni.

Erla Björg Sigurðardóttir félagsráðgjafi var í hópi þeirra sem mótmæltu á pöllum ráðhússins í dag. Hún segir félagsráðgjafa hafa dregist aftur úr í launum. Frá því að þjónustumiðstöðvar borgarinnar voru stofnaðar í júní í fyrra hafi komið í ljós að hinir ólíku faghópar þar séu með mjög misjöfn laun og þar séu félagsráðgjafar lægst launaðir.

Borgin hefur lagt fram tilboð í kjaraviðræðunum og mun kjaranefnd félagsráðgjafa svara því á föstudag. Ella Kristín Karlsdóttir, formaður stéttarfélags félagsráðgjafa segir mikinn hug í ráðgjöfunum og aðgerðir eins og verkfall séu hugsanlegar ef ekki náist sátt á næstunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×