Sport

Portland sló Evrópumeistarana út

Spænska liðið Portland San Antonio var nú síðdegis að slá út Evrópumeistara Barcelona í Meistaradeildinni í handbolta og tryggja sig þannig í undanúrslit keppninnar þrátt fyrir tap á Spáni, 26-23. Portland vann fyrri leikinn 25-21 og því samanlagt með einu marki.

Barcelona hafði forystu nær allan leikinn og voru 6 mörkum yfir í hálfleik, 15-9. Í upphafi seinni hálfleiks náðu Börsungar að halda 6 marka forystu, 17-11 en eftir það tók markvörður Portland til sinna ráða og gestirnir náðu að saxa forskot heimamanna niður.

Og þriðja liðið til að tryggja sig í undanúrslitin varð ungverska liðið Veszprém sem lagði Frakkana í Montpellier nú síðdegis, 27-22 (14-11) en fyrri leikurinn fór 23-21 fyrir Montpellier.

Fjórði og síðasti leikurinn í 8 liða úrslitunum hefst nú kl. 17:30 þegar Ólafur Stefánsson og félagar í Ciudad Real mæta Celje. Ciudad vann fyrri leikinn 34-27 þannig að Ólafur og félagar eru í vænni stöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×