Fótbolti

Ræða það að hætta með fram­lengingar í Meistara­deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Liverpool bíða hér spenntir í vítakeppninni en Liverpool datt út úr Meistaradeildinni í ár eftir tap í vító á móti franska liðinu Paris Saint-Germain.
Leikmenn Liverpool bíða hér spenntir í vítakeppninni en Liverpool datt út úr Meistaradeildinni í ár eftir tap í vító á móti franska liðinu Paris Saint-Germain. Getty/Joe Prior

Svo gæti farið að ein risastór breyting og tvær aðrar minni breytingar verði gerðar á leikjum í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar í fótbolta í næstu leiktíð.

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, er að íhuga þessar breytingar á keppninni sem er að klára sitt fyrsta tímabil eftir að hætt var var með riðlakeppnina. Í vetur voru öll lið sett í sömu deild  en bæði liðum og leikjum var fjölgað.

Breytingin tókst vel en forráðamenn UEFA eru ekki hættir að þróa keppnina og leggja nú til frekari breytingar.

Sú stærsta af þessum mögulegu nýju breytingum er að hætta með framlengingar í Meistaradeildinni. Leikir, sem enda með jafntefli og þyrfti að framlengja, færu þá í staðinn beint í vítakeppni.

Þetta myndi vissulega minnka álagið á leikmenn og margir styðja það að losna við þrjátíu mínútur sem oft snúast um að bíða eftir vítakeppninni.

Önnur möguleg breyting er að liðin sem enda í hópi þeirra átta efstu í deildinni tryggja sér seinni leikinn á heimavelli í bæði átta liða úrslitum og undanúrslitum. Þetta myndir auka enn frekar vægi þess að ná sem bestum árangri í deildarkeppninni.

Þriðja breytingin er síðan að lið frá sama landi gætu ekki mæst fyrr en komið er fram í átta liða úrslitin. Ensku liðin gætu reyndar orðið sex í Meistaradeildinni á næstu leiktíð og það gæti því flækt málin aðeins.

Það verður forvitnilegt að sjá hvort það verði af þessum breytingum á keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×