Sport

Spyr mig af hverju ég gerðist markvörður

Örvæntingarsvipurinn á Wiese segir allt sem segja þarf um atvikið í gær, sem var í meira lagi grátlegt fyrir þýska liðið
Örvæntingarsvipurinn á Wiese segir allt sem segja þarf um atvikið í gær, sem var í meira lagi grátlegt fyrir þýska liðið NordcPhotos/GettyImages

Tim Wiese, markvörður Werder Bremen hefur eflaust ekki sofið vel í nótt, því skelfileg mistök hans undir lok leiksins gegn Juventus í gærkvöldi urðu þess valdandi að Bremen missti af sæti í 8-liða úrslitunum í Meistaradeildinni. Wiese átti vart til orð til að lýsa líðan sinni eftir leikinn í gær.

"Ég bara skil ekki hvað gerðist - þetta er ótrúlegt. Maður ver öll þessi skot í leiknum og svo gerir maður svona byrjendamistök í blálokin sem kostuðu okkur farseðilinn í 8-liða úrslitin. Svona lagað hendir markverði líklega bara einu sinni á æfinni. Markverðir geta jafnvel staðið sig eins og hetjur en gera svo ein mistök og það kostar liðið leikinn. Það er ekki laust við að ég spyrji mig af hverju í ósköpunum ég gerðist markvörður yfir höfuð," sagði aumingja Wiese.

Félagar hans reyndu að hughreysta hann með litlum árangri eftir leikinn, en þjálfari hans benti réttilega á að það hefði fyrst og fremst verið Wiese að þakka að Bremen var enn inni í leiknum á Delle Alpi. "Frammistaða minna manna var frábær og meira að segja betri en í fyrri leiknum. Það var því sannkölluð skömm að þurfa að tapa þessu á svona marki. Ég get þó ekki verið að skammast út í Tim, því hann hélt okkur inni í leiknum á löngum köflum og ef hans hefði ekki notið við - hefðum við aldrei verið í aðstöðu til að ná áfram í keppninni," sagði Thomas Schaaf, þjálfari Bremen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×