Viðskipti innlent

Hagnaður Granda minnkar

Hagnaður HB Granda hf. nam 547 milljónum króna á síðasta ári. Þetta er samdráttur um 447 milljónir króna frá 2004 þegar hagnaðurinn nam 994 milljónum króna.

Rekstrartekjur fyrirtækisins námu 10,8 milljörðum á síðasta ári en þær voru 9,2 milljarðar króna árið á undan. Þessi vöxtur um 16,5 prósent á milli ára skýrist einkum af tilkomu Engeyjar RE 1 og þeirra skipa sem bættust í flotann með samruna við Tanga og Svan RE 45, þ.e. Brettings, Sunnubergs og Svans, að því er fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þá kemur fram að árangur loðnuvertíðar hafi verið betri en árið áður og fengur auknar tekjur við vinnslu uppsjávarfisks til manneldis. Loks hækkuðu afurðaverð í erlendri mynt.

Heildareignir HB Granda hf. námu tæpum 29,3 milljörðum króna í lok síðasta árs. Þar af voru fastafjármunir 25,3 milljarðar króna og veltufjármunir rúmir 3,9 milljarðar króna. Eigið fé fyrirtækisins nam 10,3 milljörðum króna í lok 2004 en heildarskuldir voru í árslok 18,97 milljarðar króna.

Skipastóll HB Granda hf. samanstendur af 5 frystitogurum, 4 ísfisktogurum, 5 uppsjávarskipum og einu uppsjávarfrystiskipi.

Á árinu 2005 var heildarafli skipa félagsins 295 þúsund tonn, þar af botnfiskur 51 þúsund tonn og uppsjávarfiskur 244 þúsund tonn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×