Innlent

Stóru orðin ekki spöruð á Alþingi

MYND/Vilhelm Gunnarsson

Stóru orðin voru ekki spöruð á Alþingi í morgun þegar umræðu um vatnalögin var haldið áfram. Iðnaðarráðherra sagði ekki stein standa yfir steini í málflutningi stjórnarandstöðunnar.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, kvaddi sér fyrst hljóðs í morgun til að ræða störf þingsins. Hann sagði liggja fyrir samkomulag aðila EES samningsins um hvað ætti að vera innihald laga sem byggðu á vatnstilskiipun Evrópusambandsins.

Hann spurði því iðnaðarráðherra hvort þetta væri rétt og hvort ekki ætti þá að fresta frekari umræðu um frumvarpið.

Guðlaugur Þór Þórðarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði stjórnarandstæðinga beita málþófi sem væri ólíðandi. Kolbrún Halldórsdóttir, vinstri grænum, sagði þingmann hafa verið í ójafnvægi í pontu.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, kom loks í pontu og sagði að með frumvarpinu væri aðeins verið að gera formbreytingu. Stjórnarandstaðan héldi því fram að verið væri að skerða almennings- og umhverfisrétt sem væri rangt og þeir vissu það. Hún sagði ekki standa stein yfir steini í málflutninginum.

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði Vinstri græna vilja þjóðnýta auðlindina líkt og í Sovétríkjunum forðum. Hann sagði Samfylkinguna fylgja með og ekki vita hvaðan á sig stæði veðrið.

Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslyndra, sagði um einkavæðingu vatns að ræða og fyrr myndi hann dauður liggja en að taka þátt í að samþykkja það á Alþingi.

Fundarhlé er nú á Alþingi en fundur hefst aftur kl. 13.45.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×