Sport

Vill fara frá Þrótti til Fylkis

Markmaðurinn knái Fjalar Þorgeirsson hefur mikinn hug á því að fara frá Þrótti og til Fylkis sem vill fá hann í sínar raðir. Fjalar verur samningslaus næsta haust og hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning sem Þróttarar hafa boðið honum.

"Eins og staðan er hjá klúbbnum í dag hef ég ekki áhuga á því að framlengja samninginn minn," sagði Fjalar í gær en Þróttarar vilja alls ekki missa þennan frábæra markmann sem vill spila í efstu deild hér á landi.

Fylkir hefur átt í viðræðum bæði við Fjalar og Þrótt en pattstaða virðist vera í málinu þar sem Þróttarar eru tregir á að selja einn sinn mikilvægasta mann. "Við erum tilbúnir til þess að lána hann frá okkur í sumar ef hann framlengir samninginn sinn við liðið," sagði Kristinn Einarsson formaður knattspyrnudeildar Þróttar í gær.

"Þegar við förum upp í sumar og þurfum að huga að því að styrkja liðið fyrir úrvalsdeildina verðum við að hafa Fjalar innan okkar raða. Ég tel að hagsmunum Þróttar sé best hagað þannig að Fjalar skrifi undir nýjan samning og fari á láni í sumar," bætti Kristinn við.

Engar viðræður hafa átt sér undanfarið um kaupin á Fjalari en líklegt er að þær muni hefjast aftur á næstu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×