Viðskipti innlent

Ísland og ESB semja um tollalækkanir

Mynd/Valgarður Gíslason
Tollar á ýmsar landbúnaðarvörur verða felldir niður í viðskiptum á milli Íslands og landa Evrópusambandsins (ESB) 1. janúar á næsta ári. Er búist við að samkomulag á milli Íslands og ESB leiði til lægra verðs á innfluttum á landbúnaðarafurðum um leið og það skapar ný sóknarfæri til útflutnings íslenskra landbúnaðarafurða til ESB.

Í Stiklum, vefriti utanríkisráðuneytisins, segir að samkomulagið sé gert á grundvelli 19. greinar samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Er þetta í fyrsta sinn sem Ísland og ESB gera samkomulag á grundvelli greinarinnar.

Þá segir í ritinu að miðað sé við að tollfrjáls lambakjötskvóti landsins hækki úr 1.350 tonnum í 1.850 tonn og að ESB fái tollfrjálsan kvóta til Íslands fyrir 25 tonnum af kartöflum og 15 tonnum af rjúpum auk þess sem samkomulagið kveður á um gagnkvæma 15 tonna tollfrjálsan kvóta á pylsur. Þá fær ESB 20 tonna innflutningskvót fyrir osta til Íslands og Ísland fær á móti 20 tonna kvóta fyrir útflutning á smjöri til ESB-ríkja.

Samkvæmt samkomulaginu falla tollar á jólatrjám, frosnu grænmeti, þurrkuðum matjurðum, sætum kartöflum og ávaxtasafa niður um áramótin. Þá falla innflutningstollar á lifandi hestum, hreindýrakjöti í heilum og hálfum skrokkum, tómötum, agúrkum og vatni sömuleiðis niður.

Í Stiklum kemur fram að gert sé ráð fyrir gagnkvæmum viðskiptum með blóm og plöntur, þó ekki afskorin blóm eða pottaplöntur undir einum metra á hæð.

Heilbrigðisreglur koma hins vegar í veg fyrir innflutning á lifandi hestum, að því er fram kemur í Stiklum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×