Viðskipti innlent

Hagnaður Síldarvinnslunnar 413 milljónir

Síldarvinnslan hf. á Neskaupsstað var rekin með 413 milljóna króna hagnaði í síðasta ári. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 1,6 milljarðar króna, eða 22 prósent, af rekstrartekjum. Veltufé frá rekstri var 1,1 milljarður og nam handbært fé frá rekstri 1 milljarði króna.

Rekstrartekjur samstæðunnar á síðasta ári voru 7,26 milljarðar króna og nam kostnaðarverð sölu rúmum 6 milljörðum króna, að því er fram kemur í tilkynningu frá Síldarvinnslunni. Vergur hagnaður var því tæpir 1,2 milljarðar króna.

Þá nam útflutningskostnaður 603 milljónum króna,skrifstofu- og stjórnunarkostnaður 229 milljónum króna og annar rekstrarkostnaður 147 milljónum króna. Rekstrarhagnaður var því 815 milljónir króna.

Í tilkynningunni segir að hagnaður síðasta árs hafi verið mun lakari en árið á undan og skýrist það fyrst og fremst af háu gengi krónunnar, minni kolmunnaveiðum- og vinnslu og hærra olíuverði. Þá var engin sumarveiði á loðnu á árinu 2005.

Úthlutuður loðnukvóti á síðustu vetrarvertíð var mun minni en væntingar stóðu til og stóð vertíðin stutt. Hefur úthlutunin afgerandi áhrif á rekstur Síldarvinnslunnar og verður brugðist við með því að draga úr kostnaði við rekstur félagins, segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×