Innlent

Ítrekaði að taka bæri upp atvinnuveiðar

Sjávarútvegsráðherra ítrekaði í dagt þá skoðun sína að taka bæri upp hvalveiðar í atvinnuskyni. Hann sagði Íslendinga í samkeppni við hrefnuna um nytjastofna við landið og að hvalveiðar væru forsenda þess að hægt væri að byggja upp stofnana.

Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki, vakti athygli á því í fyrirspurnartíma á Alþingi að nýlega hefði Hafrannsóknastofnun kynnti bráðabirgðaniðurstöður úr vísindarannsóknum sínum á hrefnu sem staðið hafa yfir síðustu þrjú ár. Þar hefði komið fram hlutfall þorsks í fæðu hrefnunnar væri mun meira en talið hefði verið hingað til. Talið hefði verið að um þrjú prósent af heildarfæðu hrefnunnar væri þorskur en bráðabirgðaniðurstöðurnar sýndu að það hlutfallið væri á bilinu fimm til fimmtán prósent.

Þá benti Guðlaugur á að lítið hefði mælst af þungmálmi og þrávirkum efnum í þeim hrefnum sem veiddar hefðu verið í vísindaskyni. Því spurði hann flokksbróður sinn, Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra, meðal annars hvaða áhrif niðurstöðurnar hefðu á framhald vísindarannsókna og hugsanlegar atvinnuveiðar.

Sjávarútvegsráðherra sagði niðurstöðurnar sýna að til þess að byggja upp nytjastofna eins og þorskinn þyrfti að stunda hvalveiðar. Einar sagði enga endanlega pólitíska ákvörðun hafa verið tekna um það hvenær atvinnuveiðar hæfust en hann reiknaði með að vísindaveiðum og -rannsóknum lyki á næstu tveimur árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×