Innlent

Kannar hvort breyta þurfi jarðalögum vegna uppkaupa

MYND/GVA

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra ætlar að kanna hvort breyta þurfi jarðalögum og taka upp einhvers konar ábúðarskyldu til þess að koma í veg fyrir að efnamenn kaupi upp jarðir úti á landi sem dragi hugsanlega úr möguleikum bænda til búskapar. Þetta kom fram í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Björgvin G. Sigurðursson, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði uppkaup efna- og stóreignamanna á jörðum síðustu misseri að umtalsefni í fyrirspurnartíma. Hann benti á að jarðarverð hefði hækkað gífurlega að undanförnu af þessum sökum og sagði það bæði gott og vont. Það væri vont þar sem bændur gætu ekki keppt við efnamenn um jarðir sökum fjárskorts en hins vegar væri gott að bændur gætu leyst út verðmæti jarða sinna ef þeir vildu.

Björgvin vísaði í dönsk lög þar sem ábúðarskylda er á jörðum sem eru stærri en 30 hektarar og innti Guðna Ágústsson landbúnaðarráðherra eftir því hvort til greina kæmi að breyta jarðalögum í þá átt til þess að koma í veg fyrir jarðasöfnun efnamanna á kostnað þess að bændur gætu stundað búskap.

Landbúnaðarráðherra fagnaði áhuga almennings á jörðum en sagði ljóst að fara þyrfti yfir mörg atriði í nýrri þróun sveitanna. Hann hygðist fara yfir málið í sínu ráðuneyti með aðstoð Bændasamtakanna þar sem ljóst væri að menn hefðu af málinu nokkrar áhyggjur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×