Sport

Ætlar ekki að taka Ronaldinho úr umferð

Ancelotti ætlar ekki að láta taka brasilíska snillinginn Ronaldinho sérstaklega úr umferð
Ancelotti ætlar ekki að láta taka brasilíska snillinginn Ronaldinho sérstaklega úr umferð NordicPhotos/GettyImages

Carlo Ancelotti er mjög bjartsýnn á að hans menn í AC Milan nái að slá Barcelona út úr undanúrslitum Meistaradeildarinnar, en liðið er nú í þriðja sinn í undanúrslitum á síðustu fjórum árum. Ancelotti ætlar ekki að setja sérstakan mann til höfuðs brasilíska snillingsins Ronaldinho og segir varnarmenn sína fullfæra um að halda aftur af honum.

"Árangur okkar undanfarin ár segir sína sögu og ég held að við förum langt á reynslunni," sagði Ancelotti, en Milan lagði Juventus í úrslitum árið 2003 og tapaði sem kunnugt er fyrir Liverpool í skrautlegum úrslitaleik keppninnar í fyrra.

"Við erum þaulvanir því að spila svona úrslitaleiki, en það eru leikmenn Barcelona ekki. Ég held að Barcelona og Milan spili besta fótboltann í Evrópu í dag og því verða leikirnir tveir án nokkurs vafa hin besta skemmtun," sagði Ancelotti, sem verður án framherjans Filippo Inzaghi sem er með flensu.

En ætlar Ancelotti að taka snillinginn Ronaldinho sérstaklega úr umferð? "Nei, við breytum ekki út af vananum með það. Við stundum ekki að spila maður á mann vörn og höldum okkur við okkar hefðbundnu svæðisvörn og treystum á að halda aftur af honum þannig," sagði Acelotti - sem fær varnarmanninn reynda Jaap Stam aftur inn í hópinn eftir meiðsli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×