Sport

Verður Roader ráðinn til frambúðar?

Glenn Roader hefur unnið kraftaverk með lið Newcastle síðan hann tók við, en fyrir nokkrum vikum var tímabilið í molum hjá félaginu. Nú sér félagið hinsvegar fram á að vera með í baráttunni um Evrópusæti.
Glenn Roader hefur unnið kraftaverk með lið Newcastle síðan hann tók við, en fyrir nokkrum vikum var tímabilið í molum hjá félaginu. Nú sér félagið hinsvegar fram á að vera með í baráttunni um Evrópusæti. NordicPhotos/GettyImages

Breskir fjölmiðlar eru farnir að leiða líkum að því að Glenn Roader verði boðin staða knattspyrnustjóra Newcastle til frambúðar, en hann hefur náð frábærum árangri sem afleysingastjóri liðsins síðan Graeme Souness var látinn fara á sínum tíma. Newcastle hefur unnið fimm leiki í röð í deildinni og er skyndilega komið í harða keppni um Evrópusæti.

Roader hefur fram að þessu lítið tjáð sig um það hvort hann hafi áhuga á starfinu til frambúðar og segir að það sé alfarið stjórnarformannsins að taka þessa ákvörðun. "Ég sit ekki við símann og bíð eftir að mér verði boðið starfið - það er á hreinu, en ef sú staða kæmi upp myndi ég líklega hugsa málið. Þetta er hinsvegar alveg í höndum Freddy Shepherd stjórnarformanns félagsins, en hann hefur hingað til veitt mér góðan vinnufrið og skiptir sér ekki að því sem ég er að gera. Það kann ég vel að meta og því held ég að ég leyfi honum bara að vinna vinnuna sína í friði líka," sagði Roader.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×