Innlent

Setuverkfall á miðnætti

Frá fundi ófaglærðs starfsfólks í dag.
Frá fundi ófaglærðs starfsfólks í dag. MYND/Hörður

Setuverkfall ófaglærðra starfsmanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum hefst á miðnætti. Á fundi starfsmannanna í dag var ákveðið að boða til viku setuverkfalls. Þeir eru ósáttir við ákvarðanir forsvarsmanna heimilanna um að hækka laun einhliða og talsmaður starfsmanna býst við fjöldauppsögnum á næstunni.

Ófaglærðir starfsmenn á fjórtán dvalar- og hjúkrunarheimilum á suðvesturhorni landsins komu saman til fundar í dag til að ræða þá stöðu sem upp er komin. Eins og kunnugt er ákváðu forsvarsmenn heimilanna einhliða að hækka laun þeirra til jafns við laun starfsmanna Reykjavíkurborgar í sams konar störfum en launahækkanirnar koma á lengri tíma en starfsmenn vildu. 

Fjórtán dvalarheimili voru upphaflega í hópnum en starfsmenn heimilanna Eirar og Skjóls ákváðu að falla frá aðgerðum eftir að forsvarsmenn heimilanna buðust til að ljúka launahækkunum á tíma sem starfsmennirnir gátu sætt sig við. Starfsmenn Áss og Skógarbæjar ákváðu sjálfir að falla frá áframhaldandi aðgerðum og starfsmenn fleiri heimila hafa íhugað að gera það sama. Setuverkfall mun hefjast á að minnsta kosti sex heimilum á miðnætti það er á Hrafnistu í Reykjavík og í Hafnarfirði, Víðinesi, Vífilstöðum, Sunnuhlíð og Grund. Á fundinum var einnig ákveðið að grípa til uppsagna á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×