Innlent

Kynna skýrslu um íslenskt efnahagslíf í New York

MYND/Hari

Viðskiptaráð Íslands ætlar á morgun að bregðast við gangrýnisröddum innan lands sem utan og kynna skýrslu um íslenskt efnahagslíf sem Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, hefur unnið í samvinnu við einn virtasta hagfræðing í heimi á sviði fjármálastjórnar og fjármálastöðugleika. Skýrslan verðir kynnt fyrir bandarískum fjölmiðlum og fjármálamönnum í New York og er enginn kattarþvottur fyrir íslenskt efnahagslíf segir forstöðumaður Hagfræðistofnunar.

Viðskiptaráð Íslands réð fyrir um mánuði hagfræðinginn Fredric Mishkin til þess að vinna skýrslu um íslenskt efnahagslíf í kjölfar fjölda skýrslna og álita frá erlendum bönkum og greiningardeildum um stöðuna hér á landi. Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, hefur unnið skýrsluna með Mishkin undanfarnar þrjár vikur og þar skoða þeir undirstöður íslenska hagkerfisins og hvort hér sé hætta á fjármálakreppu eins og sumar erlendar fjármálastofnanir hafa spáð.

Mishkin, sem er prófessor við Columbia-háskóla, er mjög virtur í Bandaríkjunum og hefur meðal annars verið orðaður við stöðu aðstoðarseðlabankastjóra Bandaríkjanna, en hann hefur sérhæft sig í fjármálastöðugleika hagkerfa. Tryggvi segir sól hans hafa risið hátt eftir kreppurnar í Asíu og Suður-Ameríku. Hann hafi til að mynda spáð því á fundi seðlabankastjóra heimsins nokkrum dögum áður en kreppa skall á í SA-Asíu að von væri á henni fljótlega.

Skýrslan verður kynnt á fundi í New York á morgun að viðstöddum stórum bandarískum fjölmiðlum og fjármálamönnum. Tryggvi vill ekkert gefa upp um efni skýrslunnar en segir að með henni sé verið að bregðast við gangrýnisröddum um skort á upplýsingum um íslenskt efnahagslíf. Nú sé reynt að meta hagfræðina í málinu. Skýrslan sé þó enginn kattarþvottur, íslenskt efnahagslíf fái sína gagnrýni í skýrslunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×