Innlent

Krefjast þess að verðhækkanir verði dregnar til baka

Neytendasamtökin hafa sent stórri ferðaskrifstofu bréf þar sem þau krefjast þess að ákvörðun þeirra um verðhækkun á pakkaferðum skrifstofunnar verði dregin til baka. Á heimasíðu Neytendasamtakanna segja samtökin að ferðaskrifstofan hafi sent mörgum neytendum sem greitt hafa svonefnt staðfestingagjald bréf þar sem þeim er tilkynnt um að verð ferðanna hafi verið hækkað eða verði hækkað vegna gengisbreytinga að undanförnu.

Telja samtökin að slíkt stangist á við lög eða séu á mjög gráu enda gildi um pakkaferðir lög þar sem gert er ráð fyrir að samningur sé gerður við hvern og einn kaupanda og að í slíkum samningi sé tilgreint verð sem óheimilt er að breyta. Samtökin hafa gefið viðkomandi ferðaskrifstofu viku til að draga hækkanir sínar til baka eða að öðrum kosti verði neytendastofu sent málið til skoðunnar.

Þá hafa Neytendasamtökin bent á að þegar skoðuð er verðlagsþróun á pakkaferðum undanfarin ár þá sést að þegar krónan hefur veikst eins og gerðist á árinu 2001, hækkuðu pakkaferðir en þegar krónan styrktist á nýjan leik hafi það ekki leitt til verðlækkunar á slíkum ferðum. Ætlast Neytendasamtökin til þess að það sé samhengi í hlutunum hjá seljendum og svo sé ekki hjá ferðaskrifstofum að því er segir á heimasíðu samtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×