Innlent

Íslensk stjórnvöld ættu að skammast sín

Íslensk stjórnvöld ættu að sjá sig um hönd, jafnvel skammast sín fyrir hvernig staðið hefur verið að framkvæmdum við álverið á Reyðarfirði. Þetta segir Hjörleifur Guttormsson sem gagnrýnir harðlega frummatsskýrslu Alcoa um umhverfisáhrif frá álverinu og framgang stjórnvalda í þeim efnum.

Alcoa skilaði skýrslunni í lok apríl en upphaflega höfðu stjórnvöld undanþegið álverið umhverfismati. Sú undanþága var kærð og með dómi Hæstiréttar var álverinu gert að fara í umhverfismat. Í skýrslunni eru skoðaiðr tveir kostir við losun útblásturs, annars vegar þurrhreinsun eingöngu og hins vegar þurrhreinsun auk vothreinsunar. Mikill munur er á losun brennisteinsdíoxíðs ef eingöngu er notuð þurrhreinsun en þó innan þeirra viðmiðunarmarka sem Umhverfisstofnun setur. Það dugir þó ekki til að mati Hjörleifs Guttormssonar.

Hann segir að fyrirtæki ættu alltaf að velja besta kostinn en svo sé ekki í tilfelli álvers Alcoa á Reyðarfirði þar sem klárlega sé betra að nota hvoru tveggja þurrhreinsun og vothreinsun.

Hjörleifur telur að Alcoa sé fórnarlamb í þessu máli og segir íslensk stjórnvöld hafa sett þetta mál í algjört uppnám með því að krefjast þess ekki frá upphafi að álverið færi í umhverfismat.

Nú tekur við um það bil hálft ár þar til umfjöllun og kæruferli vegna skýrslunnar verði lokið og þá verða aðeins rétt um fjórir mánuðir í að álverið á að hefja framleiðslu. Hjörleifur vonar að stjórnvöld sjái að sér, jafnvel skammist sín og snúi til betri vegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×