Innlent

Hundaólar sem gefa rafstuð

Úr myndasafni
Úr myndasafni MYND/Vilhelm

Hægt er að gefa hundum rafstuð með þar til gerðum hálsólum sem verslun í Reykjavík hefur til sölu. Löglegt er að flytja ólarnar inn og selja, en ekki að nota þær.

Ólarnar fást í Sportbúð Títans á Krókhálsi og hafa verið þar til sölu í tæpt ár. Um nokkrar gerðir er að ræða og að sögn Fannars Pálssonar, rekstrarstjóra verslunarinnar, eru ólarnar bæði notaðar til að þjálfa veiðihunda og sporna við hegðunarvandamálum hjá hundum.

Á fjarstýringu sem fylgir ólunum eru tveir hnappar, annar þeirra til að gefa hljóðmerki sem kemur úr ólinni og er þá ætlað að hindra tiltekna hegðun hjá hundinum. Ef það ber ekki tilætlaðan árangur er hinn hnappurinn notaður, sem gefur hundinum rafstuð. Fannar segir að eftir örfá skipti verði nóg að gefa hljóðmerkið því hundurinn tengir það við rafstuðið, samanber bjölluhljómurinn og matargjöfin hjá hundum Pavlovs um árið.

Karl Karlsson, dýralæknir hjá Umhverfisstofnun, segir að samkvæmt dýraverndunarlögum sé löglegt að flytja ólarnar inn og selja þær, en ólöglegt að nota þær. Hann segir að lagt hafi verið til við umhverfisráðuneytið að settar séu hömlur á innflutningi ólanna og auglýsingum á þeim.

Spurður hvort segi megi að það sé löglegt en siðlaust að flytja ólarnar inn og selja þær segist Fannar ekki álíta svo. Hann bendir líka á að enginn agnúist út í rafmagnshestagirðingar, sem í sé miklu meiri straumur, og Fannar spyr á móti hvort þær séu einhverju skárri en umræddar ólar.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×