Innlent

Dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir kynferðisafbrot

Mynd/Valli

Tæplega þrítugur karlmaður var dæmdur í þriggja og hálfs árs óskilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær fyrir gróf kynferðisafbrot gegn stjúpdóttur sinni og vinkonu hennar. Karlmaðurinn, sem er eþíópískur ríkisborgari, var giftur móður annarrar stúlkunnar um fjögurra ára skeið.

Kynferðisafbrotin áttu sér stað á heimili mannsins og stjúpdóttur hans yfir fjögurra ára tímabil frá árinu 2000 til 2004 en hann var giftur móður stúlkunnar fram til haustsins 2004 þegar þau slitu samvistum. Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi marg oft gerst sekur um að hafa misnotað fyrrum stjúpdóttur sína á umræddu tímabili, en stúlkan var aðeins sex ára gömul þegar maðurinn hóf að misnota hana.

Þá gerðist hann einnig sekur um að hafa misnotað vinkonu stjúpdóttur sinnar nokkrum sinnum á fimm mánaða tímabil árið 2004. Stúlkurnar, eru núna á tólfta aldursári. Maðurinn var, eins og áður sagði, dæmdur í þriggja og hálfs árs óskilorðsbundið fangelsi. Brot ákærða voru hegningarauki við tvo dóma frá árinu 2005, en þá var maðurinn tvívegis dæmdur fyrir akstur eftir að hafa verið sviptur ökuleyfi. Hann var einnig dæmdur til að greiða sjúpdóttur sinni eina og hálfa milljóni króna í miskabætur og vinkonu hennar eina milljón króna. Þá er manninum gert að greiða allan sakakostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og skipaðs réttargæslumanns brotaþola, alls um 1,2 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×