Innlent

Svikin loforð yfirvalda um vísindaveiðar á ákveðnum svæðum?

MYND/Sigurður Bogi

Veiðar á hrefnu eru stundaðar inni á svokölluðum hvalaskoðunarsvæðum við strendur landsins, þrátt fyrir gefin loforð yfirvalda um að það yrði ekki gert. Þetta segir varaformaður Hvalaskoðunarsamtaka Íslands.

Hvalaskoðunarsamtök Íslands héldu blaðamannafund í dag þar sem meðal annars var kynnt ný samantekt á fjölda ferðamanna í hvalaskoðunarferðum hér við land. Hún sýnir að á milli áranna 2004 og 2005 stóð fjöldinn í stað í tæplega 82 þúsundum, en fram að því hafði fjöldi ferðamanna sem fara í slíkar skoðunarferðir nánast vaxið stöðugt frá upphafi hvalaskoðunar við Ísland.

Guðmundur Gestsson, varaformaður Hvalaskoðunarsamtakanna, vill þó ekki fullyrða að bein tengsl séu á milli vísindaveiða á hrefnu sem hófust árið 2003 og því að þessi stigvaxandi fjölgun hafi stöðvast. Hann segir hins vegar að fjöldi ferðamanna almennt sem komu hingað til lands á sama tíma hafi einnig staðið í stað, og því virðist vera tengsl á milli þess hóps og þeirra sem fara í hvalaskoðun.

Guðmundur segir að íslensk yfirvöld hafi svikið loforð sem gefið hafi verið áður en vísindaveiðarnar hófust, þ.e. að veiðarnar yrðu ekki stundaðar inni á svokölluðum hvalaskoðunarsvæðum við strendur landsins. Samkvæmt upplýsingum sem hann hafi frá Hafrannsóknarstofnun hafa hvalir hins vegar ítrekað verið skotnir á þessum svæðum.

Og Guðmundur segir fátækleg svör að fá frá yfirvöldum þegar þeim er bent á vandann. Svörin hljómi í megindráttum á þá leið að þetta geti ekki staðist.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×