Innlent

Ríkið mesti lífeyrisþeginn

MYND/Hari

Ríkið er mesti lífeyrisþeginn að mati Stefáns Ólafssonar prófessors við Háskóla Íslands. Hann segir eldri borgara og öryrkja hafa orðið eftir í góðæri síðustu ára og að ójöfnuður á Íslandi geti orðið jafn mikill og í Bandaríkjunum ef ekki verði gripið til stórtækrar uppstokkunar á samspili almannatryggingakerfis og skattkerfis.

Félag eldri borgara og Öryrkjabandalagið stóð í dag ásamt ASÍ, Starfsgreinasambandinu, BSRB og Félagsvísindastofnun fyrir ráðstefnu undir yfirskriftinni Skattar og skerðingar. Meðal þeirra sem héldu fyrirlestra þar voru Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, sem rannsakað hefur þróun skattbyrði og skerðingu á lífeyrisgreiðslum síðustu árin.

Stefán benti á að fyrirtæki og fjármagnseigendur hefðu notið góðs af góðæri síðustu ára en sama mætti ekki segja um lífeyrisþega. Það væri vegna aukinnar skattbyrgði og reglna í almannatryggingakerfinu um að lífeyrir þaðan skerðist þegar menn hafi aðrar tekjur, þar á meðal úr lífeyrissjóðakerfinu. Skerðingin sé of mikil og geri það að verkum að ríkið njóti á bilinu 66 til 85 prósenta af þeim lífeyri sem verið sé að greiða fólki úr lífeyrissjóðunum. Ríkið á Íslandi sé því í raun stærsti lífeyrisþeginn hjá lífeyrissjóðum landsins.

Stefán bendir á að ef þróunin verði sú sama áfram geti blasað við ófagurt ástand eftir tíu ár. Ef þróunin haldi áfram verði álíka ójöfn tekjuskipting á Íslandi og í Bandaríkjunum í dag en það sé ein ójafnasta tekjuskipting sem fyrirfinnist á Vesturlöndum og tengist gríðarlegum þjóðfélagsvanda vestan hafs.

Stefán segir þörf á stórtækum aðgerðum, uppstokkun á almannatryggingakerfinu og skattkerfinu og sérstaklega samspili þeirra. Fyrirkomulag þessarra mála hér á landi sé fáheyrt og það bitni mjög á lífeyrisþegum nú á dögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×