Innlent

Engin hætta á hagkerfishruni á íslandi

Mat Mishkin og Tryggva Herbertssonar var kynnt bandarískum fjölmiðlum og fjármálamönnum í New York síðdegis.

Meginniðurstöður þeirra tveggja er að ekki séu til staðar þær grundvallarveilur í hagkerfinu sem ýti undir hættu á hruni eða kreppu - eins og t.d. í suður Ameríku og Asíu. Hér á landi sé stöðugleiki í ríkisfjármálum og skuldir hins opinbera lægri en í flestum iðnríkjum. Lífeyrissjóðir séu í góðri stöðu. Peningamálastefnu hafi að mestu tekist að halda verðbólgu í skefjum - sérstaklega þegar húsnæðiskostnaði sé haldið utanvið mælinguna.

Rétt sé að skluldir þjóðarbússins séu háar en það eitt og sér sé ekki ávísun á óstöðugleika. Nokkur hætta sé þó á að bankar lendi í vanda við endurfjármögnum lána sinna - enda hafi þeir farið hratt í vextinum einkum á erlendri grund.



Hagfræðingarnir telja einna mestu hættu á að vont umtal um að kreppa sé yfirvofandi geti í sjálfu sér leitt til kreppunnar - en taka þó fram að slíkt gerist síður þegar undirstöður hagkerfisins séu í lagi. Þrennt er síðan lagt til sem mótvægi gegn þeim áhrifum. Lagt er til að eftirlit með fjármálastofnununm sé allt fært til Seðlabankans og það styrkt. Viðskiptabankarnir eru hvattir til að vera ósparir á að miðla upplýsingum um sig og stjórnvöld ættu að leggja rækt við að draga úr sveiflum.

Í heild er vart hægt að draga aðra ályktun en þá að þessi skýrsla sé vottorð um hollustu hagkerfisins - og er hún í andstöðu við þann bölmóð sem birst hefur í skýrslum erlendra greiningardeilda og fjölmiðla undanfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×