Innlent

Tekjuskattur á fyrirtæki einna lægstur hér á landi

MYND/Vilhelm

Ísland er áfram í hópi þeirra ríkja þar sem tekjuskattur fyrirtækja er einna lægstur samkvæmt nýrri könnun KPMG. Tekjuskattur fyrirtækja í Evrópu heldur áfram að lækka og er nú töluvert lægri að meðaltali en í Asíu og Suður-Ameríku.

KPMG International Tax Center kannar árlega tekjuskatt víðs vegar um heiminn og hefur nú birt nýjar tölur um þróun hans síðasta árið. Þar kemur fram að tekjuskattshlutfall fyrirtækja í Evrópu lækkar jafnt og þétt og má rekja það til aukinnar samkeppni meðal ríkja Evrópusambandins um fjármagn og vinnuafl. Meðaltalstekjuskattshlutfall innan ESB er nú 25,04 prósent og lækkaði um tæplega 0,3 prósentustig í fyrra. Það er töluvert lægra en meðaltalið innan OECD sem er 28,31 prósent og sömuleiðis minna en meðaltal Suður-Ameríku og Asíu og Kyrrahafslanda.

Nokkur ríki innan ESB lækkuðu tekjuskattshlutfall sitt á síðasta ári um 0,5 til þrjú prósent en eitt ríki hækkaði það, Þýskaland. Það er áfram í hópi þeirra ríkja innan OECD þar sem tekjuskattur fyrirtækja er hvað hæstur en á toppnum tróna Japanar með ríflega 40 prósenta tekjuskatt. Ísland er hins vegar í hópi þeirra ríkja þar sem tekjuskattshlutfallið er hvað lægst, en það er 18 prósent hér.

Hins vegar minnir KPMG á það að lágt skatthlutfall í hundraðshlutum þýði ekki endilega lága skattbyrði. Ýmsir frádrættir og ívilnanir geti verið í gildi í löndunum áður en skattstofn sé ákvarðaður og þá sé ekki ólíklegt að einn skattur sé hækkaður meðan annar sé lækkaður því ríki verði jú að tryggja skatttekjur sínar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×