Innlent

Segir yfirvöld þurfa standa vörð um erlent launafólk

Starfsgreinafélag Austurlands gagnrýnir yfirvöld harðlega fyrir slæleg vinnubrögð lögreglu og annarra opinberra aðila með eftirliti á kaupum og kjörum erlends launafólks. Félagið kærði fyrirtæki á Austurlandi í október fyrir að ráða erlenda verkamenn sem skráðir voru ferðamenn í landinu.

Sverrir Albertsson framkvæmdastjóri starfsgreinafélags Austurlands segir ástæðu gagnrýninnar vera þá að í október lagði félagið fram kæru á hendur fyrirtækis, eftir að upp komst að það hafði við störf fimm erlenda starfsmenn sem allir voru skráðir sem ferðamenn. Segir Albert að fyrirtækið hvorki hafa sótt um leyfi né tilkynnt um þjónustusamning til Vinnumála- eða Útlendingastofnunnar.

Það sem Starfsgreinafélagið telur þó helst ámælisvert er niðurstaða sýslumannsins á Eskifirði, en fimm mánuðum eftir að kæra var lögð fram varð niðurstaðan sú að málið hafi ekki gefið tilefni til frekari aðgerða. Sverrir segir Starfsgreinafélag Austurlands hafa krafist frekari útskýringa en án árangurs.

Hann telur illt til þess að vita að yfirvöld standi ekki betri vörð um hagsmuni launafólks hér á landi. Máli sínu til frekari stuðnings bendir hann á svipað mál, þar sem fulltrúi sýslumanns á Seyðisfirði hætti rannsókn á máli starfsmannaleigu, á þeim forsendum að málið væri óupplýst. Inger L. Jónsdóttir sýslumaður á Eskifirði kvaðst ekki í aðstöðu til að tjá sig um þetta mál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×