Viðskipti innlent

Kögun tapaði 100 milljónum

Kögun hf. og dótturfélög fyrirtækisins töpuðu 100 milljónum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta er 195 prósenta viðsnúningur frá síðasta ári þegar fyrirtækið skilaði 105 milljóna króna hagnaði. Tap Kögunar fyrir skatta nam 120 milljónum króna.

Rekstrartekjur Kögunar og dótturfélaga samstæðunnar námu samtals 5.595 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2006. Veltuaukning er 1.474 milljónir króna eða 35,8 prósent á milli ára. Hafa þarf í huga að fleiri fyrirtæki mynda nú samstæðu Kögunar en áður, að því er fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu til Kauphallar Íslands. Rekstrargjöld námu samtals 5.155 milljónum króna en þau voru 3.784 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.

Þá nemur rekstrarhagnaður fyrirtækisins og dótturfélaga þess fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) samtals 439 milljónum króna eða 7,9 prósentum af rekstrartekjum, sem er í samræmi við áætlanir félagsins, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Töluverðar breytingar hafa orðið á efnahagsreikningi Kögunar hf. og dótturfélaga þess frá lokum síðasta árs, m.a. vegna kaupa Kögunar á bandaríska hugbúnaðarfyrirtækinu Specialists in Custom Software Inc. (SCS, Inc.) í Kaliforníu en kaupin á SCS Inc. fóru fram í gegnum dótturfélag Kögunar hf., Kögun USA, Inc. Ennfremur vegna kaupa Skýrr á 58,7 prósenta eignarhlut í EJS hf. Heildareignir Kögunar í lok mars á þessu ári námu tæpum 24,1 milljarði króna en heildareignir á sama tímabili í árslok 2005 námu 20,64 milljörðum króna.

Skoðun ehf., dótturfélag Dagsbrúnar, keypti 51 prósent hlutafjár í Kögun hf. í mars og hefur gert yfirtökutilboð í félagið. Gangi tilboðið eftir mun Kögun hf. verða afskráð úr Kauphöll Íslands hf. og verða við það ákveðin kaflaskil hjá fyrirtækinu sem skráð hefur verið á markaði frá árinu 2000, að því er segir í tilkynningunni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×