Innlent

Stærsti 10. bekkjar árgangur frá upphafi

MYND/Vísir

Stærsti árgangur sem nokkurn tímann hefur útskrifast úr 10. bekk grunnskólanna mun útskrifast í vor. Aðstoðarmaður menntamálaráðherra telur að allir sem sæki um í framhaldsskólum fyrir næsta vetur fái þar inni.

Innritun í framhaldsskólana fyrir næsta haust hefst þann 15. maí næstkomandi. Allar umsóknir um nám í dagsskóla verða rafrænar að þessu sinni þar sem sótt er um á netinu. Umsækjendur geta breytt eða afturkallað umsóknir sínar allt þar til umsóknarfrestur rennur út á miðnætti þann 12. júní. Geti skóli ekki orðið við umsókn er hún send í skóla sem nemandi valdi til vara.

Árgangurinn sem útskrifast á úr 10. bekk grunnskólanna í vor er sá stærsti frá upphafi, eða tæplega 4.800 nemendur. Frá árinu 1998 hafa tæplega þrjátíu og fjögur þúsund nemendur útskrifast úr grunnskólum landsins. Stærsti árgangurinn hingað til var ´88 árgangurinn sem lauk 10. bekk árið 2004, en í honum voru ríflega 4.600 nemendur. Meðaltalið í árgangi síðastliðin átta ár, eða frá árinu 1998, er rúmlega 4.200 nemendur. Fjöldinn sem lýkur grunnskólagöngu sinni nú í vor er því tæplega 600 nemendum yfir meðaltalinu.

Í ljósi þessa, og með hliðsjón af því að tvö síðastliðin haust fengu ekki allir nemendur inngöngu í þá framhaldsskóla sem þeir sóttu um, má ætla að nokkurs konar kreppuástand geti skapast í haust. Í samtali við NFS sagðist Steingrímur Sigurgeirsson, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, þó ekki hafa áhyggjur af þessu, og gerir hann ráð fyrir að allir sem sækja um í framhaldsskólunum fyrir næsta vetur, fái inngöngu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×