Innlent

DV birti ranga mynd með umfjöllun um kókaínsmygl

DV birti mynd af rangri stúlku með umfjöllun um kókaínsmygl í blaðinu í dag. Ritstjórinn harmar þessi leiðu mistök, en faðir stúlkunnar segir hana miður sín og að umfjöllunin geti skaðað feril hennar sem skíðakonu.

Grein DV fjallar um handtöku tæplega tvítugrar stúlku sem stöðvuð var á Keflavíkurflugvelli fyrir þremur vikum með 140 grömm af kókaíni innvortis. Blaðið nafngreinir stúlkuna, sem gat sér gott orð fyrir skíðaiðkun á árum áður, og fyrirsögnin er: „Skíðastúlka með kókaín innvortis." Með greininni er hins vegar birt mynd af annarri stúlku en handtekin var en á það sameiginlegt að hafa gert garðinn frægan innan skíðaíþróttarinnar.

Jón Konráðsson, faðir stúlkunnar sem myndin er af, segir sér hafa brugðið mjög þegar hann sá mynd af dóttur sinni með greininni. Stúlkan er við nám í Noregi og segir Jón að hún hafi orðið mjög miður sín þegar hann sagði henni frá mistökunum í dag. Þá segir hann að umfjöllunin geti skaðað feril hennar sem skíðakonu. Aðspurður hvort honum finnist koma til greina að krefjast skaðabóta svarar Jón að ekkert hafi verið ákveðið í þeim efnum. Honum finnst jafnframt undarlegt að skíðaíþróttin skuli vera dregin inn í umfjöllunina.

Skíðasamband Íslands sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem mistökin eru hörmuð, sem og að DV skuli tengja skíðaiðkun við umfjöllun sína um innflutning á eiturlyfjum. Páll Baldvin Baldvinsson, ritstjóri DV, segist einnig harma mistökin. Hann segir þetta hafa gerst vegna mistaka við myndaleit á netinu. Við leit eftir nafni stúlkunnar sem handtekin var á tilteknum skíðavef komi upp röng mynd. Páll segir að við slíka leit í framtíðinni, sem tíðkist nokkuð á DV, verði kannaðar enn betur þær myndir sem svari kalli á netinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×