Sport

FH og Valur mætast í kvöld

Íslandsmeistarar FH í leik í Landsbankadeildinni síðasta sumar.
Íslandsmeistarar FH í leik í Landsbankadeildinni síðasta sumar.

Hinn árlegi leikur meistara meistaranna í fótboltanum fer fram í kvöld. Þá keppa Íslandsmeistarar FH og bikarmeistarar Vals en leikurinn hefst klukkan 19.15 á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði. Miðaverð verður 1000 kr. fyrir 17. ára og eldri, 300 kr. fyrir 11-16 ára og frítt fyrir 10 ára og yngri.

Fyrst var leikið í þessari keppni árið 1969 og voru það Keflvíkingar sem unnu titilinn fyrst félaga. Valsmenn, ásamt Keflvíkingum og Frömurum, hafa unnið þennan titil oftast eða í 7 skipti. FH sigraði í meistarkeppninni á síðasta ári og var það í fyrsta sinn sem FH-ingar unnu þennan titil.

Dómari er Garðar Örn Hinriksson en honum til aðstoðar á línunni verða, Eyjólfur Ágúst Finnsson og Gunnar Sverrir Gunnarsson.

Landsbankadeild karla hefst svo um næstu helgi þegar 1. umferð verður leikin á sunnudag. Meðal leikja þá verður stórleikur KR og FH í Frostaskjóli en viðureignin verður í beinni útsendingu á Sýn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×