Innlent

Erfðabreytileiki sem eykur líkur á krabbameini í blöðruhálskirtli fundið

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. MYND/Gunnar V. Andrésson

Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar og íslenskir, bandarískir og sænskir samstarfsaðilar þeirra hafa fundið erfðabreytileika sem eykur líkur á krabbameini í blöðruhálskirtli.

Þetta kemur fram í grein sem birtist í dag í vísindatímaritinu Nature Genetics. Þar kemur fram að breytileikinn hafi fundist í umfangsmiklum erfðarannsóknum á Íslandi en áhrif hans hafi verið staðfest í Bandaríkjunum og í Svíþjóð.

Um 19% karla af evrópskum uppruna sem greinst hafa með krabbamein í blöðruhálskirtli eru með þennan breytileika, að því er fram kemur í greininni, en hann virðist auka líkur á þessu tiltekna krabbameini um 60% og vera ábyrgur fyrir 8% tilfella. Breytileikinn er sagður hafa sambærileg áhrif meðal svartra Bandaríkjamanna en vegna mun hærri tíðni er hann talinn ábyrgur fyir um 16% tilfella meðal þeirra og skýrir að hluta hærri tíðni þessa krabbameins í svörtum Bandaríkjamönnum.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og einn höfunda greinarinnar, segir að niðurstöðurnar verði notaðar til að þróa greiningarpróf sem gæti hjálpað læknum við að ákvarða hverjir eigi mest á hættu að fá sjúkdóminn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×