Erlent

Cheney styður NATO-aðild Balkanlandanna

Aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins mun að líkindum fjölga um þrjú fyrir árið 2010. Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, hét í dag Króötum, Albönum og Makedónum stuðningi sínum við inngöngu þeirra í bandalagið.

Heimsókn Dick Cheney til þriggja af kommúnistaríkjum kaldastríðsáranna hefur staðið yfir í fjóra daga en í ferðinni hefur hann rætt við vel á annan tug þjóðarleiðtoga. Sum ummæli hans í ferðinni hafa raunar farið svo fyrir brjóstið á ráðamönnum í Moskvu að fjölmiðlar hafa talað um að annað kalt stríð sé handan við hornið. Heimsókninni lauk svo formlega í dag í Dubrovnik í Króatíu þar sem hann hitti forsætisráðherra landsins og starfsbræður hans í Albaníu og Makedóníu. Í ræðu sinni hrósaði Cheney þremenningunum fyrir þær lýðræðisumbætur sem þeir hafa staðið fyrir og síðan veifaði hann framan í þá kærkominni gulrót, stuðningi við aðild þeirra að Atlantshafsbandalaginu.

Cheney bætti því við að innganga ríkjanna myndi hleypa nýju lífi í bandalagið. Þau hafa raunar lengi unnið að því að fá aðild að NATO og er Króatía komin lengst á þeirri vegferð. Stuðningur Bandaríkjanna við þessar væntingar ríkjanna þriggja er ekki með öllu óvæntur því í þeim sjá stjórnvöld í Washington dygga bandamenn, eflaust með réttu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×