Sport

Phoenix hafði betur í skoteinvígi við Clippers

Eins og búist hafði verið við, átti Phoenix-liðið lítil svör við leik Elton Brand undir körfunni og nýtti hann 18 af 22 skotum sínum
Eins og búist hafði verið við, átti Phoenix-liðið lítil svör við leik Elton Brand undir körfunni og nýtti hann 18 af 22 skotum sínum NordicPhotos/GettyImages

Það var lítið um varnir í fyrsta leik Phoenix Suns og LA Clippers í undanúrslitum Vesturdeildarinnar í NBA í nótt, þar sem heimamenn höfðu sigur 130-123. Steve Nash var afhent styttan fyrir að vera kjörinn verðmætasti leikmaður ársins fyrir leikinn, en hann féll klárlega í skuggann af öðrum leikmanni lengst af í nótt í leik sem sýndur var beint á NBA TV.

Nash var stigahæstur í liði Phoenix með 31 stig og 12 stoðsendingar, Raja Bell skoraði 22 stig og Shawn Marion skoraði 20 stig og hirti 15 fráköst. Það var hinsvegar

Elton Brand hjá Clippers sem var maður leiksins í gær, en hann skoraði 40 stig, hirti 9 fráköst og varði 4 skot. Hittni hans var ótrúleg í leiknum, en hann nýtti 18 af 22 skotum sínum utan af velli. Hann skoraði þó aðeins 2 stig á síðustu 8 mínútum leiksins og áhlaup Phoenix í lokin reyndist Clippers of stór biti til að kyngja.

Sam Cassell skoraði 28 stig fyrir Clippers og Corey Maggette skoraði 20 stig. Steve Nash átti ekki til orð yfir stórleik Elton Brand að leik loknum. "Brand var ótrúlegur í leiknum og við réðum ekkert við hann. Það hlýtur því að vera erfitt fyrir hann að hafa tapað þessum leik. Mér sýndist hann ætla að láta afhenda sér styttuna fyrir mikilvægasta leikmanninn í hálfleik," sagði Nash glettinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×